Við litum inn til bændanna á Brúnastöðum, Ágústs Inga Ketilssonar og Elínar Magnúsdóttur, þar sem verið er að klára uppsetningu og undirbúa gangsetningu á LELY A5 mjaltaþjóni, ásamt flórgoða af gerðinni Lely Collector 120 og 5.000 lítra Lely mjólkurtanki.
Ágúst sýndi okkur fjósið og sagði okkur að, eins og oft með stórar ákvarðanir og framkvæmdir, hafi það verið örlítið stressandi að taka skrefið, breyta fjósinu og koma fyrir mjaltaþjóninum, en eftir að ferlið hófst hafi þetta verið skemmtileg vegferð og mikil eftirvænting eftir því að gangsetja Lely mjaltaþjóninn.
Kýrnar eru í aðlögunarferli með því að ganga eingöngu í fóður og sumar eru mjög áhugasamar um nýju græjuna (eins og sjá má á myndunum).
Aðspurður segist Ágúst hlakka mest til færri vinnustunda og þar með fleiri gæðastunda með fjölskyldunni og börnum. Hann hlakkar til að þurfa ekki að fara á slaginu 7 út í fjós að sinna vinnunni, heldur geta e.t.v. notið morgunstundanna með börnunum á meðan allir gera sig klára fyrir daginn. Hann sér líka fram á að geta sinnt mjaltastörfunum einn, en áður hafi þeir alltaf þurft að hjálpast tveir að, hann og pabbi hans, sem fær núna að slaka á og drekka kaffibollann sinn í rólegheitum.
Áætlað er að gangsetja Lely A5 mjaltaþjóninn eftir helgi – það verður gaman að fylgjast með því!